Dags daglega eru vötn hulduheimar fyrir okkur mennina. Það er áhugavert að kynnast þessum heimi og það þarf alls ekki að vera svo flókið.
Til votlendis teljast t.d. ár, lækir, tjarnir, stöðuvötn og fjölbreyttar mýrar. Votlendi er ákjósanlegt búsvæði fyrir fjölbreyttar lífverur.
Næringarefni vatnsins
Í vatninu sjálfu eru mismikil uppleyst steinefni. Einkum eru lindavötn rík af steinefnum enda hefur vatnið ferðast í gegnum jarðlögin. Steinefni virka eins og áburður fyrir þörunga og vatnagróður. Þau eru mikilvæg í tengslum við ljóstillífun.
Vatn er ekki bara vatn…
Flokkun vatna
Vötn eru flokkuð í jökulvötn og bergvötn. Er þá bæði átt við stöðuvötn og rennandi vatn, svo sem ár og læki.
Jökulvötn koma úr jöklum og eru gjarnan grá af jökulleir.
Bergvötn skiptast í lindavötn og dragavötn.
Uppruni lindavatna er neðanjarðar og koma þau fram í lindum eða uppsprettum. Þar sem eru lindavötn eru jarðlögin gljúp líkt og svampur. Rennslið verður jafnt og hitastig vatnsins stöðugt, um 4°C.
Dragavötn verða til úr vatni sem fellur á yfirborð jarðar og safnast saman. Þar er bergið þétt og hleypir illa í gegnum sig vatni. Búast má við ójöfnu rennsli í dragavötnum enda gætir áhrifa lofthita, mikillar úrkomu eða hláku strax í dragavötnum.
Lindavötn eru ríkjandi á höfuðborgarsvæðinu.
Straumvötn
Í frjósömum ám, sérstaklega þeim sem renna úr stöðuvötnum, eða hafa farið um gróið land, rekur smáar lífverur og lífrænar leifar niður með ánni. Það er kallað rek og er mikilvæg fæða fyrir fiska og smádýr sem lifa á árbotninum.
Í straumhörðum ám eru þörungar botnfastir og smádýr þurfa að finna skjólgóðan stað, til dæmis inn á milli steina, festa sig á botninn, nú eða þyngja sig á einhvern hátt til þess að straumurinn taki þau ekki. Fiskar hafa styrk til að standast strauminn. Í ám eru oft hylir og rólegir staðir, til dæmis undir bökkunum, sem fiskar sækja í.
Hvort á er lindá eða dragá hefur vissulega áhrif á lífríkið sem þar þrífst.
Vatnsbolur er orð sem haft er um þann hluta vatnsins sem er ekki við botninn eða ströndina.
Lífverur stöðuvatna lifa á botninum, í vatnsbolnum eða í fjörunni.
Dýpt vatnsins og um leið magn birtu sem þangað kemst hefur áhrif á hvort þar vex gróður. Gróðurinn veitir skjól og myndar sérstakt búsvæði, einkum fyrir smádýr. Grunn stöðuvötn geta hitnað og kólnað í takt við lofthitann.
Á vatnsbotninum og í fjörunni getur verið leðjubotn, grýttur botn eða hraunbotn. Hraun og grjót skapar hentugt búsvæði til að koma sér fyrir, jafnvel fela sig.
Í vatnsbolnum synda lífverur, til dæmis fiskar, eða svífa um líkt og svifþörungarnir sem ljóstillífa.
Mýrar
Vatnsmýri er þekktasta votlendið í Reykjavík. Þar eru tjarnir, lækir og bleyta. Þangað sækir fjöldi fugla og það er ekki síst þess vegna sem svæðið hefur verið friðað. Á varptíma má ekki trufla fuglana og þá eru göngubrýr teknar niður til að koma í veg fyrir umferð fólks.
Stærstu votlendissvæðin í landi Reykjavíkur eru annars á Kjalarnesi, í Úlfarsárdal og í Heiðmörk nálægt Elliðavatni og Rauðhólum. Svo finnast blettir hér og þar t.d. á sumum eyjunum.
Í Úlfarsárdal var votlendi endurheimt, en þar hafði landið verið þurrkað upp. Sjá nánar. *** Efnið er í vinnslu.
Vegna halla á landi rennur vatn af ákveðnu svæði í tiltekna á eða vatn. Slíkt svæði nefnist vatnasvið árinnar eða vatnsins.
Nokkur vötn og vatnsföll
Blikadalsá
Bugða
Elliðaár og Elliðavatn
Fossvogslækur
Grafarlækur
Helluvatn
Hólmsá
Kiðafellsá
Klébergslækur
Kollafjarðará
Langavatn (bæði í Reykjavík og Mosfellsbæ)
Leirvogsá (á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar)
Mógilsá
Rauðavatn
Reynisvatn
Suðurá
Tjörnin í Reykjavík og Vatnsmýri
Úlfarsá – efnið er í vinnslu ***
Vatn í umhverfi ykkar – vettvangsathugun
- Sjáið þið straumvötn (ár, læki) eða stöðuvötn (tjarnir, vötn)?
- Hvaðan kemur vatnið?
- Hvert fer vatnið?
- Er vatnið sem þið skoðið raskað af mannavöldum, ef svo er hvernig og til hvers?
- Vatn er miskalt. Þið getið mælt hitann með hitamæli eða tánum.
- Er líf í vatninu? – Setjið ykkur í „spor“ lífvera í læk, tjörn og mýri.
KENNARAR / FULLORÐNIR
Til útskýringar:
Votlendi: Samkvæmt skilgreiningu á votlendi teljast fjörur og grunnsævi líka til votlendis.
Steinefni: Næringarríkt vatn inniheldur steinefni, en steinefni eru til dæmis fosfór og nitur, sem eru mjög mikilvæg fyrir plöntur og ljóstillífun.
Gljúp eða þétt jarðlög: Líkja má jarðlögunum við svamp og gangstéttarhellu. Vatnið, m.a. rigningarvatn fer ofan í svamp en rennur eftir þéttri hellunni. Jarðlögin, einkum þau eldri eru þétt, en yngra berg á gosbeltunum er gljúpt. Þar sem eru gljúp jarðlög fer vatnið einfaldlega ofan í jörðina, er neðanjarðar. Annars staðar á landinu þar sem bergið er þéttara kemst vatnið ekki niður en rennur eftir yfirborðinu – þar eru ár.