Tún - minni fjölbreytni

Vatn leitar þangað sem landið er lægst. Vatn úr hlíðum safnast niður í dali og lægðir. Þar er því gjarnan mýri eða votlendi.

Víða hefur votlendi verið þurrkað upp með því að grafa skurði. Gjarnan hefur hinu þurrkaða landi verið breytt í tún. Stundum er einfaldlega verið að þurrka landið í kringum vegi eða mannvirki.

Þurrkað land með túnum er ekki jafn frjósamt og votlendið. Það er líka fátækara en votlendið af tegundum lífvera, til dæmis fugla og plantna.

Það er gaman að bjástra í skurðum. Þangað sækja endur, t.d. stokkendur, og þar vex fjölbreyttari gróður en á túnunum. Farið varlega!

… og meiri losun kolefnis

Kolefni er bundið í gróðri. Gróðurleifar varðveitast vel í vatni. Sé votlendi þurrkað kemst súrefni að kolefninu í gróðrinum og til verður koldíoxíð sem fer út í andrúmsloftið. Það er slæmt því koldíoxíð er gróðurhúsalofttegund. Sjá umfjöllun um loftslagsbreytingar.

Nú er víða verið að endurheimta votlendi og auðga þannig lífríki og binda kolefni. Í Úlfarsárdal er dæmi um það.

Svona virka skurðir

Þverskurður skurðs! - (SH).
Skurðir mætast í Fossvogsdal - (SH).

Áður en skurðurinn var grafinn náði grunnvatnið upp á yfirborð jarðvegsins (blá dauf lína). Þarna var mýri. Jarðvegurinn hélt í sér vatninu.

Eftir að skurðurinn var grafinn átti vatnið auðveldari leið burtu og vatnsborðið lækkaði (rauð lína). Jarðvegurinn þornaði og mýrin hvarf.