Jöklar ísaldar voru miklir og lágu eins og farg á landinu og ýttu því niður. Þegar jöklarnir bráðnuðu og hurfu hækkaði yfirborð sjávar og eins tók það landið langan tíma að rísa á ný (~1000-2000 ár). Þá náði sjórinn langt upp á land og megnið af Reykjavík var undir sjó.

Í hlíðum Esju eru fornir sjávarhamrar. Talið er að Keldnaholt, Laugarás, Öskjuhlíð, Grensás, Skólavörðuholt og Landakotshæð hafi staðið upp úr sjónum sem eyjar eða sker. Sjórinn náði inn eftir Elliðaárdal líklega að þeim stað sem Höfðabakkabrú er núna. Nú eru þessar fornu fjörur yfir fjörutíu metrum yfir sjávarmáli.

Myndin sýnir gróflega sjávarstöðu við lok síðasta jökulskeiðs. Það græna sýnir land þegar sjór stóð hæst - (MH).

Þegar jökull leggst ofan á jarðskorpuna gefur hún eftir og sekkur líkt og korkur á vatni. Þegar jökullinn hverfur rís jarðskorpan smám saman á ný.

Myndin útskýrir hvað er innan í jörðinni.  Jarðskorpan flýtur á möttli sem er seigur og hálffljótandi. Innst er kjarni. Innst er hann úr föstu efni.

Jörðin minnir á egg, með rauðu í miðjunni (kjarna), eggjahvítu (möttul) og yst eggjaskurn (jarðskorpu).

Samsetning Jarðar - (Stjörnufræðivefurinn).

Farið á stað þar sem sjást merki sjávar uppi á landi. Reynið að sjá fyrir ykkur fjöru á þessum stað. Útbúið myndverk sem sýnir þetta (gæti til dæmis verið myndasaga eða klippimynd).

Sjávarbarið stórgrýti í hlíðum Öskjuhlíðar - (SH).

Ég las að perlur verði til innan í skeljum. Kannski hefur einni stórri skolað á land í Öskjuhlíð!

Perlan - (SH).
  • Í Öskjuhlíð og á Gufuneshöfða er grjót sem greinilega er pússað af hafinu.
  • Sjávarhjallar eru í Elliðaárdal.
  • Laugarás rétt stóð upp úr sjónum, sem lamdi á grjótinu og skolaði burtu því smáa. Stóru og þungu hnullungarnir sátu eftir.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Farg

Þegar jökullinn leggst ofan á jarðskorpuna gefur hún eftir líkt og korkur á vatni. Þegar jökullinn hverfur rís jarðskorpan smám saman á ný.

Það mætti líka bera jökulinn saman við manneskju sem leggst á tempur dýnu. Þegar hún fer fram úr, tekur tíma fyrir dældirnar að hverfa úr dýnunni.

Myndverk

Gæti til dæmis verið myndasaga sem sýnir þróunina eða klippimynd þar sem saman er blandað ljósmyndum (frá nútíma) og málverki/teikningu til að sýna sjóinn.