Af ýmsum ástæðum geta myndast misfellur í landslagi þar sem vatn rennur fram af og myndar fossa.
Til þess að foss haldist verður hart jarðlag að halda honum uppi. Slíkt jarðlag er kallað fossberi og myndar það fossbrúnina. Undir er svo mýkra lag, sem fossinn skellur á og grefur um leið undan harða laginu. Við það fer að brotna framan af því. Á löngum tíma færist fossinn smám saman upp eftir ánni.
Vatnsfallið ykkar
- Heimsækið foss / flúðir
- Takið myndir
- Hvað heitir áin? Heitir fossinn eitthvað eða flúðirnar?
- Sjáið þið fossberann?
Í Elliðaánum eru fallegir fossar og sömuleiðis í Úlfarsá. Tröllafoss er í Leirvogsá sem er á mörkum Reykjavíkur og Mosfellsbæjar. Annars eru fossar í Reykjavík ekki svo margir, en sums staðar má sjá vatn hoppa um flúðir og er meira en vel þess virði að njóta þessara „vatnsfalla“.
KENNARAR / FULLORÐNIR
Fossar í Elliðaánum
Breiðholtsfoss og Selásfoss eru rétt ofan við brúna hjá Árbæjarlaug. (Þetta eru lágir fossar og sumir myndu sjálfsagt tala um flúðir.)
Nokkru neðan við Höfðabakkabrúna eru Skáfossar í eystri kvíslinni, en Kermóafoss/Skorarhylsfoss er í þeirri vestari. Hann er hæsti fossinn. Neðar í eystri kvíslinni eru síðan Ullarfoss og Sjávarfoss. Neðar í vestari kvíslinni eru aftur á móti Arnarfoss og Búrfoss. Skötufoss er núna þurr en vatn vestari kvíslarinnar rann þar áður um.
Fossar í Úlfarsá
Víða eru fossar og flúðir í Úlfarsá. Fossaleynisfossar eru undir Keldnaholti og Króarfoss við ósinn.