Særok og selta

Þrátt fyrir að Reykjavík sé ekki við opið haf heldur inni í Faxaflóa kemur fyrir að öldurnar verði stórar og sjórinn gangi jafnvel upp á land. Það gerist í vestan- og norðvestan átt. Sjógangur verður mestur úti á Granda (og á norðanverðu Seltjarnarnesi við Gróttu). Í norðanátt skvettist líka oft sjór meðfram Sæbraut en öldurnar eru þó aflminni en í hinum áttunum.

Full ástæða er til að vera varkár nálægt sjónum. Öldurnar geta orðið kröftugar og hrifið með sér grjóthnullunga og annað sem á veginum verður – til dæmis fólk!

Það getur líka verið hættulegt að gleyma sér í fjörunni á góðum degi og uppgötva skyndilega að flætt hafi að. Þá er viðkomandi hugsanlega á flæðiskeri staddur.

Sjógangur við höfnina, nálægt Hörpu - (SH)

Salt

Sjór er eðlisþyngri en ferskvatn. Einn lítri af fersku vatni er 1 kg en einn lítri af sjó eru um 1 kg og 30 gr. Ferskt vatn hefur tilhneigingu til að fljóta ofan á sjónum en öldur og straumar ná þó að blanda öllu saman.

Sjór frýs við lægra hitastig en ferskt vatn. Þess vegna sjáum við oft ís á tjörnum en engin merki íss á sjónum.

Í sjónum við Ísland eru 33-35 grömm af salti í hverju kílói af sjó. Sjávarlífverur eru aðlagaðar lífi í söltum sjó. Líklega myndu þær fljótlega drepast ef þær væru fluttar í ferskt vatn.

Mig sem langaði að fara með rauðmaga í baðkarið.

  1. Berið saman hvernig og hvort hænuegg flýtur í fersku vatni og sjó. Útskýrið. (Þess má geta að notað er salt vatn í sumum sundlaugum.)
  2. Setjið ferskt, kalt vatn í skál og jafn mikið af sjó í aðra skál og komið fyrir á heitum stað þar sem uppgufun á sér stað. Berið saman skálarnar þegar uppgufun er að ljúka.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Þegar saman fer djúp lægð og stórstreymi getur sjógangur orðið mjög mikill og flætt langt upp á land.