Fyrr og nú

Tjörnin í Reykjavík var upphaflega sjávarlón. Malarkambur, lokaði því frá sjónum. Lækur rann út í sjó frá þessu sjávarlóni á þeim stað þar sem nú er Lækjargata. Framan af var vatnið blandað sjó – og síðar gerðist það reglulega að sjór komst upp í Tjörnina í óveðrum og á flóði. Nú hefur verið komið fyrir loku sem kemur í veg fyrir að sjór komist í Tjörnina. Það skiptir máli fyrir lífríkið.

Umhverfi Tjarnarinnar hefur breyst smám saman.

MYNDIR:
Tjörnin 1884 – (SEy – Ljósmyndasafn Reykjavíkur).
Álitið er að myndin af Læknum sé frá 1907 -1912- (MÓ – Ljósmyndasafn Reykjavíkur).
Við norðurbakka Tjarnarinnar, mynd frá 2023 – (SH).
Tjarnarbakki við Skothúsveg – nýr en nokkuð náttúrulegur – (SH).

Ís

Vinsælt var að fara á skauta á Tjörninni þegar hún var ísilögð. Til eru gamlar myndir sem sýna mikla mannmergð á svellinu. Ennþá er skautað á Tjörninni en ekki í sama mæli og áður.

Ís var tekinn á Tjörninni til þess að nýta í íshúsum Reykjavíkur, m.a. húsi því sem nú er Listasafn Íslands og stendur við Tjörnina. Einnig var ísinn notaður til að ísa nýjan fisk sem fluttur var beint til útlanda.

Við Tjörnina í janúar - (SH).

Fuglarnir

Í gamla daga voru fuglarnir á Tjörninni veiddir til matar. Margt fólk var fátækt og matur takmarkaður. Allt sem gafst var nýtt.

Svo voru aðrir, sem höfðu gaman af að veiða og skjóta. Tjörnin og umhverfi hennar þótti kjörinn staður fyrir það sport og komið var upp sérstöku skothúsi fyrir félaga í Skotfélagi Reykjavíkur. Á tanga úti í Tjörn var varða sem skotið var á – en einnig var dritað á fuglana.

Ah, Skothúsvegur!

Ræktun 

Viðhorf fólks breyttust smám saman og árið 1919 var bannað að skjóta í borgarlandinu. Fuglavinafélagið Fönix var stofnað og gekk starf þess út á að laða að villta fugla með því að gefa þeim brauð á hverjum degi. Bar það nokkurn árangur.

Síðan þá hefur fuglum, öndum og gæsum, verið sleppt nokkrum sinnum við Tjörnina til að auka fuglalífið. Þessum fuglum var ungað út af mönnum. Mestu munaði um árin 1956 og 1957 þegar alls var sleppt 412 andarungum.

Sleppingar af þessu tagi hafa gengið nokkuð vel. Sumir fuglanna tóku að verpa og héldu sig árið um kring við Tjörnina, afkomendur þeirra sömuleiðis. Aðrir fuglar völdu að verpa annars staðar, þó ekki mjög langt í burtu, en sóttu kannski til Tjarnarinnar á veturna. Enn aðrir fuglar urpu við Tjörnina eða í Vatnsmýri og fóru annað yfir veturinn. Í raun hafa sleppingarnar orðið til þess að fjölga tegundum við Tjörnina sjálfa og eins í nágrenni Reykjavíkur.

Vatnsmýrin áður

Hin eiginlega Vatnsmýri náði yfir stórt svæði upphaflega, en var þurrkuð upp að stórum hluta. Þar var meðal annars komið upp matjurtagörðum, túnum, flugvellinum (sem mest munaði um), Tívolí, Norræna húsinu, ýmsum byggingum Háskóla Íslands og Hlíðarendahverfinu.

Þetta var (og er enn) verðmætt varpsvæði fuglanna. Þar var gott beitiland. Eins sóttu Reykvíkingar þangað mó (eldivið) í miklu magni fyrir tíma kola og hitaveitu.

Sem betur fer er svolítið eftir af VatnsMÝRI og er það svæði verndað.

Vatnsmýri - (SH).

Hnúðsvanir

Ef þið sjáið gamlar myndir frá Tjörninni sjáið þið ef til vill hnúðsvani. Sú tegund svana er ekki íslensk. Hnúðsvanirnir voru fluttir til Íslands frá Hamborg árið 1958 og voru gjöf. Árið áður höfðu Íslendingar gefið Hamborgurum íslenskt álftapar sem hafði verpt við Tjörnina og var einstaklega styggt og hafði steggurinn reynt að ráðast á barn!

Eitthvað áttu hnúðsvanirnir erfitt framan af og fleiri svanir voru sendir til Íslands. Svo tókst þeim að eignast unga og þeim tók að fjölga og urðu 15-20 þegar mest var. Svo fór þeim að fækka og síðasti sást vorið 1977.
(Reyndar hefur hnúðsvanur flækst hingað síðar án þess að setjast að.)

Hnúðsvanur og táningatískan 1965 (JVÁ - Ljósmyndasafn Reykjavíkur).

Friðland

Þótt stór hluti Vatnsmýrar hafi farið undir byggð er það sem eftir er mjög verðmætt. Töluverður fjöldi fugla verpir þar.

Á varptíma er öll umferð um Friðlandið í Vatnsmýri bönnuð.

Verndun

Það er mikilvægt að vernda þetta svæði og Tjörnin og Vatnsmýri eru á Náttúruminjaskrá. Reykjavíkurborg stofnaði líka friðland í hluta af Vatnsmýrinni. Allt er þetta gert til að vernda Vatnsmýrina.

Ýmislegt hefur verið gert til þess að bæta búsvæði fuglanna. Í fyrsta lagi hafa verið gerðar ráðstafanir til að vatnið sem þangað kemur sé sem hreinast. Vatnið stendur nú hærra en áður og votlendið er blautara. Óæskilegur og ágengur gróður hefur verið fjarlægður. Vatnagróður úti í tjörnunum hefur aukist og er það mjög jákvætt fyrir smádýralíf, hornsíli og vistkerfið í heild. Um leið fæst meiri fæða fyrir fugla.

Bakkar Vatnsmýrartjarnar - (SH).

Sums staðar hafa verið settar greinar við tjarnarbakka til að kyrra öldurnar og draga úr rofi. Slíkt umhverfi gæti líka laðað að fugla, svo sem endur með unga og hugsanlega flórgoða.

Ég er Hollvinur Tjarnarinnar!

Vöktun

Á hverju ári fylgjast sérfræðingar markvisst með lífríkinu og meta ástandið. Um þessar mundir er því miður mjög slæmt ástand á fuglastofnunum. Fuglarnir eru almennt færri en áður og fjöldi unga sömuleiðis. Í skýrslu fyrir árið 2022 um fugla segir meðal annars: „Nú blikka öll viðvörunarljós!“ Ástand Tjarnarinnar almennt hefur þó batnað og má þakka það meiri útbreiðslu vatnaplantna og meiri vatnsgæða.

Fimm tjarnir

Tjörninni í Reykjavík var skipt með Skothúsvegi í Norðurtjörn og Suðurtjörn. Sunnar eru minni tjarnir og eru þær manngerðar. Vatnið í þeim öllum er að mestu leyti komið úr Vatnsmýri.

Hæð Tjarnarinnar er aðeins tveir metrar yfir sjávarmáli.

Hver og ein tjörn hefur sitt nafn - (SH og map.is).

Hjarta Reykjavíkur

Tjörnin er náttúrulegt hjarta Reykjavíkur og hefur verið frá upphafi. Það eru ekki allar höfuðborgir sem geta státað af svo stórri og fallegri tjörn og það með villtum fuglum. Án Tjarnarinnar myndu margir sjá vatnafugla mun sjaldnar.

Svo eru líka mörg falleg hús við Tjörnina…

… og Hljómskálagarðurinn.

Lífríkið

Fiskar

Líklega hafa fiskar gengið í Lækinn og Tjörnina áður fyrr. Nú eru þar einungis hornsíli. En hornsíli eru alvöru fiskar sem gaman er að rannsaka – sjá nánar. Mjög hentugt er að veiða hornsíli í Hústjörninni.

Á síðustu árum hefur hornsílum fjölgað mjög í Tjörninni. Vonandi lokkar það að toppönd, flórgoða og kannski fleiri fugla?

Smádýr

Alls konar smádýr má finna í Tjörninni bæði á botni og í vatnsbolnum. Dæmi um það eru vatnaflær, árfætlur, ánar, rykmýslirfur og skelkrebbi. Sjá frekari umfjöllun um smádýr í ferskvatni. 

Hér er sýndur á mynd fjöldi hryggleysingja á hvern fermetra á botni í Norður- og Suðurtjörn. Rannsóknir Náttúrufræðistofu Kópavogs í ágúst 2021.

Þægilegur staður til að veiða smádýr er til dæmis í Vatnsmýrinni í skurði nálægt Hringbrautinni.

Gróður

Nokkuð fjölbreyttur gróður er í Friðlandinu. Í sjálfum tjörnunum er smánykra ráðandi og fjallnykra er inn á milli hennar. Aðrar tegundir vatnaplantna má sjá í litlum mæli. Við brúna hjá Vatnsmýrartjörn má ganga að lófót og horblöðku. Gróður sem vex í tjörnunum bætir búsvæði annarra lífvera, svo sem smádýra og hornsíla. Fuglarnir éta þessi dýr og sumir, til dæmis gæsir, bíta sjálfar plönturnar. Gróður eykur líka magn súrefnis í vatninu og kyrrir það. Lesa nánar um gróður í ferskvatni og votlendi. 

Fuglar

Vatnafuglar

Tegundir vatnafugla geta verið misáberandi á Tjörninni og í Vatnsmýrinni eftir árstíðum. Á veturna er til dæmis mikið um álft en lítið á sumrin. Rauðhöfðaönd, sem reyndar fer fjölgandi á svæðinu, er fjölmennust á haustin og grágæsir eru fleiri þar á veturna en á sumrin. Toppönd getur sést á Tjörninni árið um kring.

Stokköndin er algeng á öllu svæðinu allt árið. Því miður fer þeim þó fækkandi, líkt og flestum hinum vatnafuglunum. Í lok júlí 2022 voru einungis þrjár stokkandarkollur með samtals sex unga. Frá upphafi talninga hafa ungarnir aldrei verið svo fáir.

Myndin sýnir fjölda stokkandarunga. Bláu punktarnir sýna fjöldann á tilteknu ári. Rauða línan sýnir hvert fjöldatölurnar leita, – greinilega niður á við. (Rannsóknir á fuglalífi Tjarnarinnar 2022.)

Til viðbótar við þá fugla sem hér hafa verið nefndir eru líkur á að sjá skúfönd, duggönd og gargönd.

Æðarfuglar eru hættir að sjást við Tjörnina samkvæmt talningum árið 2022.

Vaðfuglar

Margir vaðfuglar verpa eða sjást í Friðlandinu til dæmis: hrossagaukur, stelkur og tjaldur.

Lesa meira um vatnafugla og vaðfugla. 

Máfar og kría

Í seinni tíð hefur máfum fjölgað við Tjörnina, einkum sílamáfi. Hann sækir í brauðið sem fólk gefur öndunum, en ungar og egg eru ekki síður góð fæða að þeirra mati. Einstaka sílamáfur kemst upp á lag með að éta unga, til dæmis kríuunga og geta þeir verið afkastamiklir.

Hettumáfur er áberandi, sumir myndu segja þreytandi, – en hann étur ekki unga sem betur fer. Hann er á svæðinu árið um kring, en þó eru fáir á veturna.

Kría verpir í Vatnsmýrinni og í hólmanum í Þorfinnstjörn. Á tímabili kom fæðuskortur í veg fyrir að ungar kæmust á legg en nú er meira rætt um ógn sílamáfa.

Dúfur

Við Iðnó og Ráðhúsið er einn af fáum dúfnahópum sem eftir er á höfuðborgarsvæðinu. Lesa meira um dúfur.

Æskilegt er að fóðra fugla á veturna með brauði. Þeir hafa lítið annað að éta í hörðum vetrum. Óþarft og í raun óæskilegt er að gefa fuglunum brauð á vorin og sumrin. Ekki viljum við hæna að sílamáf sem fer svo í ungana!

  1. Veltið fyrir ykkur hvaða breytingar hafa orðið á Tjörninni frá því um landnám?
  2. Fuglar – hornsíli – gróður – smádýr.
    Gerið rannsóknir á lífríki Tjarnarinnar og Friðlandsins í Vatnsmýri. Fyrst ættuð þið að velta fyrir ykkur hvað er áhugavert að skoða og rannsaka og undirbúa ykkur vel áður en lagt er af stað. Þið þurfið líka að íhuga hvar nákvæmlega athuganir ykkar gætu farið fram.
  3. Hvað ætli sé hægt að gera til að fjölga fuglunum við Tjörnina?
  4. Skoðið hvar ágenga tegundin skógarkerfill vex í Vatnsmýri. Skógarkerfill og hvönn eyðileggja varpstaði kríu. Er hávaxinn gróður í tjarnarhólmunum?
  5. Finnski arkitektinn Alvar Alto, sem teiknaði Norræna húsið, hafði umhverfið örugglega í huga þegar hann teiknaði húsið. Getið þið reynt að sjá hvernig?
  6. Hafið þið skautað á Tjörninni?
  7. Hvað ætli sé löng vegalengd í kringum Norðurtjörnina? Getið þið hlaupið hana án þess að stoppa?
  8. Skoðið mannanna verk sem ætlað er að hafa áhrif á vatnsstreymi, hæð og útbreiðslu þess í Vatnsmýrinni.
  9. Gerið mælingar á vatninu. Finnið til dæmis hitastig, athugið strauminn þar sem það er rennandi, sýrustig, gagnsæi, athugið öldugang með því að láta spýtu/leikfangabát fljóta og svo framvegis.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Salt sjávarlón

Tjörnin í Reykjavík var upphaflega sjávarlón. Malarkambur, lokaði því frá sjónum. Lækur rann út í sjó frá þessu sjávarlóni á þeim stað þar sem nú er Lækjargata. Fram á 12. öld var vatn Tjarnarinnar blandað sjó. Það gerðist einnig um tíma á 17. öld. Reyndar gerðist það stöku sinnum eftir það að sjór flæddi upp í Tjörnina á flóði og í óveðri. Nú hefur verið komið fyrir loku sem kemur í veg fyrir að sjór komist í Tjörnina. Það er mikilvægt fyrir lífríkið.

Rannsóknir á lífríki

Skýrslur um vöktun Tjarnarinnar í Reykjavík. Náttúrufræðistofa Kópavogs hefur séð um rannsóknirnar.

Fuglalíf Tjarnarinnarskýrsla 

Um fiska og botnlíf á Vísindavefnum. 

Um myndun Tjarnarinnar

„Eftir að land reis [eftir að ísaldarjöklar hopuðu] hefur gengið dálítill fjörður inn úr norðri, þar sem Kvosin er nú, og sjávargangur síðan lokað honum með malarrifi. Innar í voginum myndaðist mýri, Vatnsmýrin. Úr henni rennur vatn í Tjörnina og úr Tjörninni rann Lækurinn til sjávar en hann er fyrir löngu orðinn að ræsi undir Lækjargötu.“ Vísindavefurinn

Mór

Mikil mótekja var í Vatnsmýri – einkum fyrir tíma innfluttra kola (~1900). Mótekja var atvinna. Tekinn á vorin og þurrkaður í hraukum yfir sumarið – farið með inn í þorpið á vögnum að hausti.

Friðun

Tjörnin og Vatnsmýri fóru á Náttúruminjaskrá 1981, en Reykjavíkurborg stofnaði friðland í hluta af Vatnsmýrinni 1984. Friðlandið ásamt Tjörninni var sett undir borgarfriðun og síðar hverfisvernd.

Lélegt ástand fuglastofna

Það sem hægt væri að gera til að auðga og styrkja fuglalífið:

  • stunda ræktunarstarf (sbr. ungasleppingar á árunum 1956-7)
  • passa upp á umhverfið (vatnið sjálft, bakka, hólma og friðlandið)
    – koma þarf í veg fyrir landbrot,
    – koma í veg fyrir að hávaxinn gróður kaffæri kríuvarpið,
    – reyna að takmarka afræningja eins og hægt er (kettir, minkur, hrafn, sílamáfur),
    – spyrna við mengun vatnsins.
  • hafa eftirlitsmann að vori og sumri sem kemur til móts við þarfir fuglanna og fylgist með
  • brauðgjafir ættu einungis að vera að vetri og hausti. Þær eru óþarfar á öðrum árstímum og valda mengun vatnsins og laða að sílamáf sem gæðir sér á ungum!

(meðal annars byggt á Fuglalíf Tjarnarinnar 2022 – skýrsla)

Fuglarnir skotnir!

Talað var um að í kringum aldamótin 1900 hafi engir fuglar fengið frið á svæðinu. Þetta kann okkur að finnast sérkennilegt nú á dögum. Hægt væri að ræða um hvernig afstaða almennings getur breyst í gegnum tíðina og hvernig augu fólks opnast. Er eitthvað í hegðun okkar nú á dögum sem á eftir að breytast – og fólk framtíðarinnar á kannski eftir að undrast yfir?

Skotfélag Reykjavíkur er elsta íþróttafélag Íslands, stofnað 1867.

Breytingar

Spurt er um breytingar á Tjörninni frá landnámi.

  • Náttúrulegir tjarnarbakkar víðast farnir. Við styttu Tómasar Guðmundssonar hefur verið farið aftur í tímann og bakkinn gerður upprunalegri: aflíðandi með háu grasi og grjóti hér og þar.
  • Tjörnin hefur verið minnkuð, landfyllingar hér og þar fyrir hús og vegi.
  • Vatnsborð hefur verið hækkað í Vatnsmýri.
  • Læknum var lokað 1913, áður hafði hann verið settur í opinn hlaðinn stokk.
  • Tjörninni var skipt í tvennt með Skothúsvegi.
  • Lokað fyrir að sjór komist í Tjörnina.
  • Alls konar mengunarvarnir. (Áður fór skólp í Tjörnina, yfirborðsvatn af götum og flugvelli fer í Tjörnina ber með sér mengun – aðgerðir hafa verið gerðar til að sporna við því.)
  • Ys og þys í umhverfinu.
  • Lífríki: fuglum fækkað og fjölgað – mengað vatn og síðan hreint vatn (mikil áhrif á lífríki) – framandi tegundir.

Rannsóknir sem má gera með börnum..

Vísað skal til síðna um smádýr, hornsíli, fugla og gróður en þar er rætt um athuganir og stungið upp á verkefnum. Jafnframt er vísað í almenna umfjöllun um vettvangsferðir.

Við Tjörnina eru einstakar aðstæður til að skoða fjölbreytt fuglalíf í návígi. Lögð skal áhersla á að tegundasamsetning er ólík eftir árstíðum og eins er ólíkt hvað um er að vera meðal fuglanna (atferli) eftir tímum árs. Þess má geta að fræðsluskiltum við Iðnó er skipt út þrisvar á ári, í takt við hvaða fugla er líklegt að sjá á hverjum tíma.