Staðsetning

Reykjavík byggðist á nesi við Faxaflóa. Á norðanverðu nesinu voru hverir og upp af þeim lagði gufu. Á nesinu voru víða hæðir og lægðir. Þar óx kjarr og lyng. Votlendi var í lægðum, tjarnir, lækir og jafnvel ár. Úti fyrir ströndinni voru (og eru!) eyjar, meðal annars Viðey.

Reykjavík byggðist á innnesi, en það er nes sem er inni í firði eða flóa.

Orðið reykur getur átt við um gufu og sú merking var algeng áður fyrr.

Stundum er talað um Reykjavík sem Borgina við Sundin. Sjórinn við Reykjavík er yfirleitt fremur stilltur, en ýfir sig þó í vondu veðri.
(ýfa og úfinn eru skyld orð).

  1. Reynið að sjá fyrir ykkur umhverfi Reykjavíkur áður en fólk settist þar að.
  2. Skoðið Íslandskort. Hvar er Faxaflói? Er ströndin þar vogskorin?
  3. Hvar eru hæðir og ásar í Reykjavík?
  4. Mörg örnefni (=staðarheiti) á Íslandi innihalda orðið reykur. Munið þið eftir einhverjum? Oftast er jarðhiti á þeim stöðum.

Hvar er hún Reykjavík?

Reykjavík á Íslandi - (WmC).
Samsettar loftmyndir – (kortasjá Landmælinga Íslands og SH).

Hverfi Reykjavíkur og tilheyrandi land

Borgarhlutar og hverfi Reykjavíkur hafa nöfn.

Hverfin í Reykjavík - (Borgarvefsjá).
  1. Í hvaða hverfi búið þið? Hvar er skólinn ykkar? Á Borgarvefsjá má skoða þetta – veljið borgarhluta og hverfishluta undir Borgarskipting.
  2. Ef þið ættuð að kynna nýjum íbúum hverfið ykkar, hvað mynduð þið sýna þeim?
  3. Þekkið þið einhverja sem búa í öðru hverfi en þið?
  4. Farið út og hjálpist að við að finna út hvar höfuðáttirnar eru (norður, suður, austur og vestur). Kannski getur sólin hjálpað ykkur.
  5. Kennileiti er eitthvað sem er áberandi í landslaginu, t.d. hæð eða klettur, sem hjálpar fólki að rata. Í þéttbýli eru byggingar og mannvirki líka eins konar kennileiti. Finnið dæmi um kennileiti í Reykjavík.
  6. Lýsið leiðinni ykkar í skólann fyrir einhverjum ókunnugum. Gefið fleiri leiðarlýsingar með upphafs- og áfangastað í Reykjavík.

Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Seltjarnarnes og Mosfellsbær eru nágrannabyggðir sem teljast til höfuðborgarsvæðisins, en tilheyra ekki Reykjavík.

Fjölbreyttar myndir mætti draga upp af Reykjavík í huganum. Flestir sjá fyrst fyrir sér þéttbýli, fljótlega koma eyjarnar upp í hugann og síðan kannski sveitir, heiðar, fjöll og grænn trefill!

Er sveit í Reykjavík?

Græni trefillinn er svæði sem myndar umgjörð í kringum borgina. Þar er víða ósnortið land með votlendi eða mólendi en einnig skógræktarsvæði og lúpínubreiður. Græni trefillinn liggur ekki einungis í landi Reykjavíkur heldur einnig um lönd hinna sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Land Reykjavíkurborgar, alls 244 km2 - (WmC).

Stækkandi höfuðborg

Skoðið á Borgarvefsjánni hvernig byggðin hefur vaxið í Reykjavík.

  • a) Takið út Borgarhluta undir Borgarskiptingu, b) veljið > Þekjur og síðan > Saga og þróun.
  • Einnig má velja >Tímavél undir >Tólastiku.

Reykjavík er höfuðborg Íslands. Í höfuðborgum hefur ríkisstjórn og helstu valdastofnanir aðsetur.

Skjaldarmerki Reykjavíkur

Merki Reykjavíkurborgar sýnir hvítar öndvegissúlur og öldur á bláum grunni sem er í laginu eins og skjöldur.

Ingólfur Arnarson og Hallveig Fróðadóttir voru fyrst til að nema land á Íslandi, skv. bókinni Landnámu. Þau áttu öndvegissúlurnar og köstuðu þeim af skipi sínu þegar þau nálguðust landið. Sagan segir að þær hafi komið að landi í Reykjavík.

Hvar sjáið þið þetta merki?
Til hvers er það notað?
Hvað eru öndvegissúlur?
Skoðið merki annarra sveitarfélaga.

KENNARAR / FULLORÐNIR

Reykjavík við landnám

Æskilegt að lesa saman textann sem lýsir umhverfinu í Reykjavík um landnám og fara yfir merkingu hans (norðanverður – lægðir – kjarr). Börnin gætu í framhaldinu fengið það verkefni að endursegja textann.

Nánar er fjallað um hvernig byggð breytir náttúru hér.

Innnes – skemmtilegt orð

Orðið innnes er svolítið skemmtilegt því það er samsett þannig að þrír eins samhljóðar koma í röð. Kannski geta börnin fundið fleiri slík orð.

Útnes er andheiti innness.

Í Vesturbænum er Framnesvegur. Hvað ætli orðið framnes þýði?

Hæðir og ásar 

Einnig er talað um hæðir og ása í tengslum við jökullandslag. Dæmi um hæðir: Skólavörðuholt, Landakotshæð, Laugarás, Rauðarárholt, Keldnaholt, Grafarholt, Breiðholt, Bústaðaháls, Grensás og Öskjuhlíð.

Nafngift Reykjavíkur

Gjarnan er talað um að gufan eða reykurinn sem átti þátt í nafngift Reykjavíkur hafi stigið upp af laugunum í Laugardal. Önnur kenning er að það hafi verið gufurnar í Örfirisey, sem sjást nú ekki lengur.

Hér er grein á Vísindavefnum:

Er eitthvert örnefni á höfuðborgarsvæðinu eða vík eða vogur, sem heitir Reykjavík?

… og hér er önnur grein á Ferli:

Nafngjafi Reykjavíkur

Þar segir meðal annars:

„Þegar Ingólfur og áhöfn hans sigla skipi sínu inn í mynni Kollafjarðar, væntanlega fyrstir manna, blasa við þeim eyjar, sund og vogar og er ekki ósennilegt að þetta land hafi minnt þá á heimahagana í Vestur-Noregi. En eitt hefur þó ugglaust vakið sérstaka athygli þeirra og furðu. Upp af litlu nesi, sem teygði sig til norðurs frá meginlandinu, steig hvítur reykur til lofts, náttúrufyrirbæri sem þeir hafa tæpast séð áður. Nafnið á staðnum var sjálfgefið, Reykjanes. Víkin innan við nesið, sem er vel afmörkuð milli Reykjaness og Arnarhólstanga, hlaut einnig að draga nafn af hvernum á nesinu og kallast síðan Reykjavík.

Með fullri virðingu fyrir Þvottalaugunum er vægast sagt hæpið að Reykjavík dragi nafn sitt af þeim. Bæði er að Þvottalaugarnar eru í nokkurra kílómetra fjarlægð frá víkinni og leiti ber í milli svo að reykurinn frá þeim sást tæpast af hafi eða í víkinni nema við sérstök veðurskilyrði.“ (Athuga kort í greininni.)

Borgarhlutar og hverfi 

Borgarvefsjá er gott tæki til að rannsaka ýmislegt í Reykjavík. Lagt er til að farið sé inn á vefsjána og skoðaðir borgarhlutar og hverfi.

Hakað við borgarhluta og hverfishluta undir Þekjur > Borgarskipting - (Skjáskot af Borgarvefsjá).

Að rata og finna áttirnar

Það er hægt að átta sig á áttunum nákvæmlega eða um það bil. Fer eftir þroska barnanna hvað lagt er af stað með. Sólin er í hásuðri á hádegi. En hvenær er raunverulega hádegi?

Að kenna áttirnar og að vísa til vegar – verkefnahugmyndir (BusyTeacher).

Í hvaða átt ætli skólinn sé frá heimilinu eða öfugt?

Reykjavík er á Suðvesturlandi eða á suðvesturhorni Íslands.

Landshlutar
Hér gæti verið gott tækifæri til að ræða um Ísland í heild og hvernig það skiptist í Suður-, Vestur-, Norður- og Austurland. Svo er líka talað um Suðvesturland, Norðvesturland, Norðausturland og Suðausturland. Einhver barnanna eiga eflaust nána ættingja utan Reykjavíkur og í öðrum landshlutum.

Þegar kosið er í Alþingiskosningum eru kjördæmin svona:

Kjördæmi – (WmC).

Líkan

Að búa til líkan er alltaf gott til að vinna með umhverfið og landafræðina. Til þess eru ýmsar leiðir og vinna má með alls konar efnivið s.s. sand í sandkassa, kubba á blaði með teiknuðum götum, pappamassa á krossviði og hugsanlega mætti komast í þrívíddarprentara? (Mixtúra)

Kennileiti 

Dæmi um kennileiti í Reykjavík:

  • Alþingishúsið
  • Arnarhóll
  • Ártúnsbrekka
  • Esja
  • Harpa
  • Hallgrímskirkja
  • Háskóli Íslands
  • Keldur
  • Kringlan
  • Landakot
  • Landspítalinn
  • Laugarás
  • Ráðhúsið
  • Sólfarið (listaverk)
  • Skólavörðuholt
  • Þingholt
  • Þjóðleikhúsið
  • Þjóðminjasafn Íslands
  • Öskjuhlíð

Kennileiti eru (oftast) hæðir sem auðvelda fólki að rata. Í landslagi borga og bæja verða mannvirki líka kennileiti.

Skjaldarmerki Reykjavíkur

Halldór Pétursson (1916-1977) teiknari var höfundur merkisins og vinningshafi í samkeppni um gerð þess. Halldór teiknaði mikið og líklega kannast margir við myndir eftir hann í fjölda barnabóka, dæmi: Helgi skoðar heiminn.

Það gæti verið skemmtilegt að skoða merki fleiri bæjarfélaga. Finna mætti leið til að flokka þau og nota þau jafnvel í stærðfræði (mengjafræði). Möguleg mengi: merki með byggingu – merki með lífveru – merki með landslagi – merki í ákveðnum lit –  annað?

Merkið er notað í tengslum við starfsemi og stofnanir Reykjavíkurborgar, sem er stjórnsýslueining; sveitarfélag.