Myndun Esju
Esjan myndaðist á gosbeltinu sem liggur frá Reykjanesi um Þingvelli og í Langjökul. Vegna landreks hefur landið, og Esja þar með, smám saman færst í vestur.
Esjan varð til í mörgum eldgosum. Elsti hluti hennar er vestast og fjærst gosbeltinu (2,8 milljón ára) og yngsti hlutinn eru Móskarðshnjúkar næst gosbeltinu (1,8 milljón ára). Megineldstöðvarnar sem mynduðu Esju voru Viðeyjareldstöðin (sjá nánar) og Stardalseldstöð. Báðar þessar megineldstöðvar eru kulnaðar.
Á myndunartíma Esjunnar voru líklega tíu jökulskeið. Þegar saman fór eldgos og jökulskeið, trauð kvikan sér upp í ísinn og móberg myndaðist. Í eldgosum sem urðu á hlýskeiðum runnu meira og minna lárétt hraun hvert ofan á annað.
Jöklar sáu svo um að hamast á hraunstöflunum, grafa út firði, sund og dali. Við getum þakkað jöklunum fyrir fegurð Esjunnar.
Hæð Esju: 914 m yfir sjó
Steinninn er í 597 m hæð yfir sjó.
Ganga, ganga, ganga
Líklega er leiðin upp að Steini fjölfarnasta fjall-gönguleið landsins. Það eru þó margar fleiri leiðir til að komast upp á toppinn og eins má ganga um í dölum og hlíðum. Í Kjósinni eru til dæmis fallegir dalir sem gaman er að kanna. Klettaklifrarar hafa líka fundið sína staði í Esju.
Uppi á Þverfellshorni, sem þó er ekki hæsti punkturinn, er víðsýnt og þar er hringsjá.
Gróður
Við gönguleiðina upp að steini eru mjög áberandi plönturnar skógarkerfill og lúpína. Báðar eru ágengar tegundir. Svo virðist sem skógarkerfill sé að ná yfirhöndinni.
Mógilsá
Á Mógilsá er skógræktarstöð með fjölda tegunda trjáplantna sem gaman er að skoða. Um skóginn eru göngustígar og öllum er velkomið að fara þar um. Lesa um skóginn og skoða kort á vef Skógræktarinnar.
Getið þið séð Esjuna út um gluggann á skólanum ykkar, af skólalóðinni eða heiman að frá ykkur? Getur Esjan ljómað?
Finnið góðan stað til að taka myndir af Esju. Farið þangað aftur og aftur og takið myndir. Merkið myndirnar með dagsetningu og tíma, athugið einnig veðrið þegar þið takið mynd og skráið. Berið saman myndirnar. Þegar þið eruð farin að þekkja Esjuna vel getur hún sagt ykkur ýmislegt um veðrið.
Ef þið gangið á Esju (eða önnur fjöll) þurfið þið að undirbúa ykkur vel og vera rétt klædd og skóuð. Ýmis góð ráð eru á vef Ferðafélags barnanna. Gaman er að taka myndir og segja öðrum frá. Munið eftir góðu nesti … og súkkulaði!
KENNARAR / FULLORÐNIR
Esja í Reykjavík
Esja tilheyrði ekki formlega Reykjavík fyrr en árið 1998 þegar Reykjavík og Kjalarneshreppur sameinuðust.
Hvernig myndaðist Esjan?
Á Vísindavefnum er grein um málið og góð skýringarmynd. Þarf að ræða um myndina til að stuðla að skilningi. – Þó tiltölulega einfalt.
Esja varð til í mörgum eldgosum. Nú eru megineldstöðvarnar sem mynduðu Esju kulnaðar, en Hengill er tekinn við sem virk megineldstöð á þessu svæði gosbeltisins.
Örnefnið
Á Vísindavefnum er grein: Hvað þýðir nafnið Esja?
Útivist
Grein á vef Ferðafélags Íslands: Esjan í allri sinni dýrð.